Tilgangur lögreglunnar á Norðurlandi með því að boða fjóra fréttamenn til yfirheyrslu með réttarstöðu sakbornings getur varla verið annar en að fá þá til að upplýsa um hvaðan þeir fengu upplýsingar um skeytasendingar milli svokallaðrar „skæruliðadeildar“ Samherja. En það mega blaðamennirnir ekki.
Samkvæmt 25. grein fjölmiðlalaga er starfsmönnum fjölmiðlaveitu „óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar.“
Miðað við frásagnir fréttamannanna af símtali lögreglu til að boða þá í yfirheyrsluna þá snýst málið um meint brot á lögum um friðhelgi einkalífs. Samkvæmt hegningarlögum er óheimilt að „útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi.“
Sé þetta upplegg rétt þá er lögregla að fara fram gegn fréttamönnum þrátt fyrir lög sem banna þeim sömu fréttamönnum að upplýsa um það sem lögregla virðist vilja vita. Nema hún haldi að blaðamennirnir fjórir, af mismunandi fjölmiðlum, hafi sjálfir í samráði stolið gögnunum sem þeir fjölluðu um.
Í lýðræðisríkjum er rík hefð fyrir því að lögregla fari varlega í aðgerðum gegn fréttamönnum, sem hafa skyldum að gegna við að upplýsa almenning. Í þessu máli eiga því öll viðvörunarljós að blikka hjá lögreglu.
Í löndum víða um heim höfum við á undanförnum árum fylgst með valdasæknum ráðamönnum grafa undan fjölmiðlafrelsi. Við sjáum þetta meðal annars í Rússlandi, Ungverjalandi, Póllandi og Indlandi. Þeir beita ýmsum aðferðum sem allar hafa þær afleiðingar að minnka svigrúm til að fjalla á gagnrýninn hátt um samfélagsmál.
Í þessum löndum eru yfirheyrslur hjá lögreglu hluti af starfsumhverfi fréttamanna. Þær eru það ekki í hefðbundnum lýðræðislöndum, þó að þær séu ekki alveg óþekktar, en þá helst þegar um alvarlega glæpi er að ræða eða opinberun ríkisleyndarmála.
Enn vitum við ekki fullkomlega hvað vakir fyrir lögreglunni með því að yfirheyra fréttamenn, og gefa þeim stöðu sakbornings. En ef tilgangurinn er að fá þá til að koma upp um heimildarmenn sem óska nafnleyndar, þá er ástæða til að spyrja hvernig lögreglu detti í hug að spyrja spurningar sem fréttamennirnir mega ekki svara.