Stjórnarherrar í þremur löndum fagna sigri Talibana í Afganistan. Það eru ráðamenn í Pakistan, Rússlandi og Kína. Tökum Pakistana fyrst.
Pakistanar
Imran Khan forsætisráðherra Pakistans duldi ekki kæti sína. Afganar „hafa brotið af sér hlekki þrældóms“ sagði hann um valdatöku Talibana. Khan er fyrrum fjölmiðlastjarna og fyrirliði landsliðs Pakistans í krikket. Sem forsætisráðherra hefur hann sveiflast æ meir í átt að stuðningi við islamista. Hann lét ummælin falla í ræðu um menntamál þar sem hann gagnrýndi sömuleiðis framhaldsskóla í Pakistan sem fara fram á ensku, enda jafngilti það að setja sig undir framandi menningu.
Um áraraðir léku Pakistanar þann leik að taka við milljörðum dollara í efnahags- og hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum en hýsa og styðja Talibana á sama tíma. Ráðamenn í Bandaríkjunum voru ekki sáttir við að láta endalaust draga sig á asnaeyrunum og skrúfuðu smám saman fyrir krana fjárflæðisins til Islamabad. En stuðningur Pakistana við Talibana hélt áfram. Við brotthvarf frá Afganistan munu Bandaríkjamenn ekki lengur þurfa jafn mikið á Pakistönum að halda sem gæti orðið til að færa samskipti ríkjanna úr kælinum yfir í frystikistuna.
Hagsmunir Pakistana af ítökum í Afganistan eru miklir. Þeir eiga löng landamæri við landið, sem liggja um hrjóstrugt fjallendi þar sem auðvelt er að fara á milli án teljandi hættu á að hitta á landamæraverði. Stórt landflæmi er ættbálkasvæði, einskismannsland þar sem rituð lög eru ekki í hávegum höfð. Hinum megin við Pakistan er Indland. Löndin hafa háð fjögur stríð frá lokum nýlendutímans og samskiptin nú eru við frostmark.
Eftir að Sovétmenn réðust inn í Afganistan á aðfangadag 1979, flúðu milljónir manna yfir landamærin til Pakistans. Stjórnvöld í Islamabad hafa því langa reynslu af því að óstöðugleiki í Afganistan getur auðveldlega valdið þjóðflutningum til Pakistans með þeim búsifjum sem því fylgja.
Leyniþjónusta hersins veðjaði snemma á Talibana – og Khan forsætisráðherra virðist hafa gert slíkt hið sama. Því kemur ekki á óvart að hann fagni nú. Ef yfirráð Talibana verða almenningi óbærileg og valda flóttamannastraumi til Pakistans er óvíst að fögnuðurinn vari lengi. Þeir sem hafa áhuga geta lesið grein sem ég skrifaði frá landamærasvæðum Afganistans og Pakistans árið 1984, þegar þrjár milljónir flóttamanna voru í Pakistan.
Rússar
Áhuga Rússa á Afganistan má rekja til stórveldaskæranna í Mið-Asíu á nítjándu öld, The Great Game, sem Rudyard Kipling lýsti svo eftirminnilega, í Kim. Það er bók sem allir áhugamenn um Mið-Asíu ættu að lesa. Rússlandskeisari hafði horn í síðu Breta, þegar þeir fóru með yfirráð á Indlandsskaga, Sovétstjórnir óttuðust ætíð óróa sem gæti komið þaðan og Vladimir Pútin forseti virðist hallast að hverju því sem veldur vesturveldum vandræðum.
Rússneski sendiherrann í Kabúl var um daginn í ríkissjónvarpi Afganistans og hrósaði Talibönum fyrir frammistöðuna við varðstöðu hers þeirra í kringum rússneska sendiráðið. Sérlegur sendimaður Pútins hefur gefið í skyn að Rússar kunni að viðurkenna stjórn Talibana, sem yrði þeim mikil lyftistöng. Hann bætti um betur og sagði að ástandið í Kabúl daginn eftir valdatöku Talibana væri betra en í tíð Ashrafs Ghani fráfarandi forseta. Tilhugalífið gerist ekki öllu rómantískara.
Þetta eru ótrúlegar vendingar. Pútin var starfsmaður sovésku leyniþjónustunnar KGB þegar afganskir skæruliðar – þar á meðal innlendir og erlendir islamistar (lesist: Osama bin Laden og fleiri) – börðust hatrammlega gegn harðneskjulegri hersetu sovéska hersins í Afganistan. Pútin hefur enga dul dregið á það að hann lítur á það sem höfuðverkefni sitt að treysta strategíska stöðu Rússlands og færa hana í átt að því sem var á Sovéttímanum.
Staðfastur hernaðarstuðningur hans við Assad Sýrlandsforseta, sem var alls ekki ókeypis fyrir Rússa, sýnir að hann er tilbúinn til að ganga langt á á þeirri vegferð. Vinahót við Talibana kunna að virðast ódýr í samanburðinum.
Kínverjar
Kínverjar hafa líkt og Rússar reynt að vingast við Talibana á undanförnum árum. Fyrir tæpum mánuði, í aðdraganda þess að Talibanar lögðu undir sig hverja héraðshöfuðborgina af annarri, lagði Abdul Ghani Baradar, pólitískur leiðtogi Talibana, land undir fót og fór til Kína til fundar við kínverska utanríkisráðherrann.
Líkt og Rússar þá hafa Kínverjar fyrst og fremst þríþættan áhuga á Afganistan. Í fyrsta lagi er landið strategískt mikilvægur nágranni; í öðru lagi telja þeir sig hafa hag af því að Bandaríkin verði fyrir skráveifu, og í þriðja lagi óttast þeir að íslamskir andófsmenn í eigin landi fái athvarf í Afganistan.
Í anda stefnunnar „vinur vinar míns er vinur minn“ þá ber að hafa í huga að stjórnvöld í Kína og Pakistan hafa verið strategískir ferðafélagar um áratugaskeið. Þau sjá sameiginlegan andstæðing í Indverjum. Ef Pakistanar sjá sér hag í að hafa Talibanastjórn í Kabúl þá munu Kínverjar að minnsta kosti fara sér að engu óðslega gagnvart þeirri stjórn. Greinendur telja að Kínverjar muni bíða og fylgjast með hegðun Talibanastjórnarinnar en að ekki sé hægt að útiloka að þeir viðurkenni hana formlega síðar.
Þá eru Kínverjar sólgnir í auðlindir í jörðu hvar sem þær er að finna. Afganistan er auðugt að alls kyns málmum sem eru mikilvægir í framleiðslu á hátæknivörum. Kínverskum fyrirtækjum hefur lítt gengið við námagröft á undanförnum árum. Hvort það breytist við valdatöku Talibana er ómögulegt að vita. En námavinnsla þarf stöðugt stjórnarfar og það er nokkuð sem þeir kunna að geta tryggt.
Stóru hagsmunir Kínverja af valdatöku Talibana hafa þó ekki endilega neitt með Afganistan að gera, í sjálfu sér. Í augum margra afhjúpaði ákvörðun Joe Biden Bandaríkjaforseta, að binda enda á tæplega 20 ára dvöl bandarískra hermanna í landinu, ístöðuleysi, hik og dugleysi við að verja náin bandamann.
Kaldur hrollur fer nú um þá sem líta á Bandaríkin sem sinn bakhjarl gegn stjórninni í Pekíng. Þar eru Tævanar efstir á blaði. Hvíta húsið þurfti nýlega að leiðrétta Biden forseta, eftir að hann virtist halda því fram að Bandaríkin myndu koma Tævanbúum til varnar réðust Kínverjar á þá. Það er ekki stefna Bandaríkjanna, sagði „háttsettur embættismaður“, heldur er það áfram stefna stjórnvalda í Washington að viðhalda ákveðinni óvissu um hver viðbrögð yrðu við árás á Tævan. Sú yfirlýsing hefur ekki verið hughreystandi fyrir stjórnina í Taipei.
Ráðamenn í öðrum löndum fylgjast líka áhyggjufullir með atburðunum í Afganistan. Löndin í kringum Suður-Kínahaf hafa mátt horfa upp á tilburði Kínverja til að koma sér upp hernaðaraðstöðu á smáeyjum sem þeir hafa sölsað undir sig. Eina landið sem getur mögulega staðað í vegi fyrir Kínverjum á svæðinu eru Bandaríkin.
Til lengri tíma hljóta Kínverjar samt að hafa áhyggjur af stjórn öfgamúslima í Kabúl. Síðan Xi Jinping varð forseti hafa ofsóknir gegn Úígúrum í norðvesturhluta Kína orðið að afdráttarlausri stjórnarstefnu. Úígúrar eru múslimar og líta á sig sem kúgaða þjóð á valdi Kínverja.
Stjórnvöld í Kína hafa beitt miklum þrýstingi við aðliggjandi ríki til að koma í veg fyrir að úígúrskir andófsmenn eigi athvarf í nágrannaríkjum, svo sem Kyrgistan og Kasakstan. Það verður erfitt fyrir Talibana í Afganistan að selja trúbræður sína í hendur Kínverjum eða neita þeim um skjól. En hægt er að bóka að það verður höfuðáhersla Kínverja í samskiptum við stjórn Talibana í Kabúl að loka fyrir að Afganistan verði griðarstaður úígúrskra stjórnarandstæðinga.
Hvað svo?
Sameiginlegt þessum þremur ríkjum – Pakistan, Rússlandi og Kína – er að hafa mikla landfræðilega hagsmuni í Afganistan. Rússum og Kínverjum þykir ekki verra að Bandaríkjamenn fái útreið og séu útmálaðir sem óáreiðanlegir bandamenn.
Til lengri tíma litið er samt óvíst að stjórn róttækra íslamista í Afganistan verði þessum þremur löndum til framdráttar. Rússar og Kínverjar hafa engu minni áhyggjur af því en Bandaríkamenn að skæruliðar og hryðjuverkamenn fái ríkt athafnafrelsi í landinu undir stjórn Talibana. Pútin hóf stjórnarferil sinn á grimmilegum hernaðaraðgerðum gegn minnihlutahópi múslima í Rússlandi.
Stjórnvöld í Pakistan þurfa eilíflega að dansa línudans milli þeirra sem aðhyllast sharia-lög bókstafstrúarmanna og fólks sem vill halda fast í borgaralegar lýðræðis- og réttarfarshefðir, sem Bretar skildu eftir sig. Imran Khan getur ekki verið viss um að Talibanar láti sér nægja að ráða yfir Afganistan. Fyrir róttæka islamista er Pakistan miklu fjölmennara og verðmætara en Afganistan. Saga þessa heimshluta er full af skrímslum sem snúast gegn þeim sem bjuggu þau til.