Vegurinn til heljar er oftast varðaður góðum ásetningi og vafalaust hefur Íslandsbanki hin ágætustu markmið með því að „kveðja auglýsingar hjá fjölmiðlum sem bjóða upp á afgerandi kynjahalla,“ svo vitnað sé í markaðs- og samskiptastjóra bankans.
En Íslandsbanki er hér á varhugaverðri vegferð sem ógnar fjölmiðlum og skaðar umræðu og þar með lýðræðið í landinu. Ekki af því að markmiðið sé ekki gott heldur vegna þess að hótun um að refsa fjölmiðlum fyrir að hegða sér ekki í samræmi við stefnu fyrirtækis er hættuleg, ein og sér, og stórhættuleg sem fordæmi.