Nú þegar Joe Biden hefur verið forseti Bandaríkjanna í eitt ár er enn óljóst hvort og þá með hvaða hætti stjórn hans ætlar að fylgja stefnu Trump-stjórnarinnar í málefnum Norðurslóða og sér í lagi Grænlands. Áhugavert verður að fylgjast með afdrifum áforma, sem fyrri ríkisstjórn virtist hafa, um verulega aukna hernaðaruppbyggingu á Grænlandi. Reyndar er sömuleiðis óljóst hvort eitthvað verður gert með hugmyndir sem bandarískur hershöfðingi viðraði um „fótspor“ á Íslandi.
Áhugi Bandaríkjanna á Norðurslóðum náðu upp á æðsta stig stjórnsýslunnar, svo eftir var tekið, og fræg eru ummæli Donalds Trump forseta um að kaupa Grænland af Dönum. Á tíma Trumps juku Bandaríkjamenn hernaðarleg umsvif sín á Norðurslóðum og virtust líklegir til að halda því áfram.
Dæmi um það eru áætlanir um dýrar fjárfestingar á Thule herstöðinni norðarlega á vesturströnd Grænlands, sem lesa má út úr svokallaðri „markaðskönnun“ hersins vegna mögulegra byggingarframkvæmda þar. Hún var gerð í nóvember 2020 og fólst í því að fimm fyrirtæki myndu fá samninga við Bandaríkjaher um samtals 250 milljóna dollara framkvæmdir til fimm ára. Á svipuðum tíma viðraði Robert Burke aðmíráll og yfirmaður bandaríska flotans í Evrópu, í viðtali við mig, að Bandaríkjaher sæktist eftir „fótspori“ á Íslandi.
Stefnubreyting með nýrri stjórn?
Martin Breum, danskur blaðamaður og sérfræðingur í málefnum Grænlands, segir í nýbirtri grein í vefritinu Arctic Today að enn sé ekki ljóst hvað stjórnvöld í Washington hyggist fyrir á Grænlandi þó að ýmislegt bendi til að þau hafi síður en svo gleymt þessu hernaðarlega mikilvæga landi. Hann bendir meðal annars á að teymi tæknimanna Bandaríkjahers hafi farið til Grænlands til að skoða hvort tveir borgaralegir flugvellir, sem nú er verið að leggja, geti nýst bandaríska hernum. Það eru flugvellirnir í Nuuk og Ilulissat.
Breum segir að áformað hafi verið að rífa niður eldri byggingar hersins í Thule en því hafi verið slegið á frest. Þá segist hann hafa heimildir fyrir því að stofnun (National Geospatial-Intelligence Agency) sem telst til njónsnaþjónustunets Bandaríkjastjórnar sé að nýta myndir úr gervitunglum til að vinna afar nákvæmt kort af þeim svæðum Grænlands sem ekki eru undir jökli. Þessi og önnur merki séu um áframhaldandi áhuga Bandaríkjanna á Grænlandi.
Bægslagangur á Trump-tímanum
Fáir fréttamenn fylgjast jafn vel með samskiptum Dana og Grænlendinga við stjórnvöld í Bandaríkjunum og Breum. Í nýlegri bók fer hann til dæmis nákvæmlega yfir afleiðingar þess að Mette Frederiksen forsætisráðherra missti út úr sér við fréttamenn að hugmyndir um kaup Bandaríkjamanna á Grænlandi væru „fáránlegar“ þegar þær komu fyrst fram. Mikið írafár varð í kjölfarið og Trump forseti aflýsti skyndilega fyrirhugaðri heimsókn til Danmerkur og bætti um betur með því að segja að þessi lýsing danska forsætisráðherrans hefði verið „andstyggileg“. Aflýsing heimsóknarinnar segir Breum að hafi valdið einhverri mesta uppnámi í samskiptum landanna tveggja hingað til.
Annað dæmi um bægslagang á Trump-tímanum er upplausnin sem varð á fundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi, 2019. Þá neituðu Bandaríkjamenn að skrifa undir lokayfirlýsingu þar sem hlýnun jarðar væri svo mikið sem getið. Mike Pompeo utanríkisráðherra hélt ögrandi ræðu á fundinum um Norðurslóðir sem vettvang stórveldasamkeppni fremur en samstarfs. Á endanum fór fundurinn út um þúfur og engin sameiginleg yfirlýsing samþykkt.
Ummæli Mikes Pence varaforseta Bandaríkjanna í stuttri heimsókn til Íslands í ágúst 2019 ollu sömuleiðis töluverðu uppnámi. Í heimsókninni undirstrikaði hann hernaðarlegt mikilvægi landsins í ljósi aukins áhuga Rússa og Kínverja á Norðurslóðum. Hann varaði Íslendinga við því að semja við Kínverja um þátttöku í fjárfestingarverkefnum tengdu Belti og braut og hvatti þá til að forðast kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei.
Diplómatísk þögn eða ný stefna?
Í samanburðinum hefur þögn nýrra stjórnvalda í Washington um hernaðarstefnu Bandaríkjanna á Grænlandi eða annars staðar á Norðurslóðum verið nánast ærandi. Á fundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík síðastliðið vor lagði Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna áherslu á að koma þyrfti í veg fyrir hervæðingu á svæðinu. Sá fundur heppnaðist vel og utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna létu sér nægja að munnhöggvast bak við luktar dyr fremur en fyrir alþjóð.
Á síðasta ári reyndi Martin Breum að fá upplýsingar frá sendiráði Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn um áform þeirra varðandi frekari uppbyggingu Thule herstöðvarinnar. Hann fékk ekkert svar. En þingmenn eru í aðstöðu til að krefjast svars. Eftir fyrirspurn þingkonunnar Aaja Chemnitz Larsen, sem er annar af tveimur þingmönnum Grænlands á danska þinginu, hafði danski utanríkisráðherrann eftir bandarískum stjórnvöldum að ekkert hefði komið út úr „markaðskönnuninni“. Engra frétta væri að vænta af þeim málum á næstunni.
Rétt er að halda því til haga að þögn er ekki sama og aðgerðaleysi. Bæði Rússar og Bandaríkjamenn eru að fjölga hernaðartólum á svæðinu. Þannig hafa Norðmenn fallist á aukin umsvif bandaríska hersins í Norður-Noregi á þremur herflugvöllum og einni flotastöð. Ný stjórn í Osló hefur gefið til kynna að hún hyggi ekki á stefnubreytingu hvað þetta varðar.
Hins vegar virðist hafa dregið verulega úr yfirlýsingagleði Trump-áranna. Þegar þetta er skrifað einbeita fulltrúar landanna tveggja sér að málefnum Úkraínu, þar sem Bandaríkjastjórn virðist staðráðin í að skylmast fremur á lokuðum fundum en opinberlega.
Hvað Grænland varðar, er enn óljóst hvort diplómatísk rólegheit séu merki um minni áhuga Biden-stjórnarinnar á umsvifum í landinu. Hitt kann að vera jafn líklegt, að stefnan sé sú sama en aðferðafræðin önnur. Reyndar telur Martin Breum að þriðji möguleikinn sé einnig fyrir hendi, að enginn í nýju stjórninni hafi gert upp við sig hvað sé best að gera.