Harðstjórar um allan heim vita af sameiginlegri reynslu að hættulegasta tímabil valdatíðar þeirra er þegar þeir byrja að slaka á klónni. Skýrasta dæmið um það eru Sovétríkin, sem hrundu eftir að Mikhaíl Gorbatsjov forseti reyndi að lappa upp á staðnað kerfi kommúnismans.
Við það urðu til fimmtán sjálfstæð ríki, þeirra á meðal Kasakstan, þar sem Nursultan Nasarbajev er að læra lexíuna eftir þrjátíu ár við völd. Hann fór úr forsetastóli 2019 en hélt fast um valdataumana sem formaður öryggisráðs landsins og með ættingja og nána bandamenn í lykilstöðum í stjórnkerfinu.
Maðurinn sem Nasarbajev lét setja í forsetaembættið, Kassym-Jomart Tokayev, virtist enda ekki ætla að gera annað en þjónkast velgjörðarmanni sínum. Hann stóð fyrir því að breyta nafni höfuðborgarinnar í Nur-Sultan, Nasarbajev til heilla, sæma hann nafnbótinni Elbasy, Faðir þjóðarinnar, og þeir tvímenningarnir fóru gjarnan saman á mikilvægar samkomur þjóðhöfðingja.
En eftir uppreisnina fyrr í þessum mánuði, sem var kveðin niður af mikilli harðneskju, komu í ljós væringar, sem greinilega hafa ólgað undir niðri. Að minnsta kosti þóttust þeir sem flykktust út á götur í borginni Zhanaozen vita hver væri á bak við verðhækkanir á gasi. „Shal, ket!“ – Gamli maður, burt!
Nasarbajev er 81 árs.
Eldfim olíuborg
Zhanaozen er borg á stærð við Reykjavík vestast í Kasakstan, álíka langt frá Nur-Sultan og Osló er frá Reykjavík. Síðustu stóru mótmæli í Kasakstan urðu líka í Zhanaozen, á þjóðhátíðardeginum 16. desember, 2011. Opinberar tölur segja að þá hafi 17 verið felldir. Þá líkt og nú eru deildar meiningar um hvernig mótmælin snerust upp í blóðbað.
Sjónarvottar segja að eldur hafi kviknað með dularfullum hætti í höfuðstöðvum stærsta olíufélagsins, sem voru víggirtar og umkringdar vopnuðum öryggisvörðum. Íkveikjan var rakin til mótmælenda. Í röðum mótmælenda hafi birst menn, sem mótmælendur könnuðust ekki við en sem fóru fram með miklu offorsi, og það hafi gefið lögreglu afsökun til að munda byssurnar.
Auk mannfallsins, sem vitað er um, hvarf fjöldi manns sporlaust og aðrir létust eða voru pyntaðir í dýflissum yfirvalda bæði eftir uppþotin og mánuðina fyrr. Alla tíð síðan hefur ríkt ógnarástand í borginni. Leyniþjónustumenn elta og ofsækja meinta stjórnarandstæðinga og þegar verð á eldsneyti á bíla hækkaði skyndilega um áramótin kom fáum á óvart að það væri í Shanaozen sem mótmæli blossuðu upp.
Örbirgð og oflæti
Kasakstan ætti að vera auðugt land og þar ættu fátækir að vera fáir. Eftir sjálfstæðið 1991 hófst stórkostleg uppbygging olíugeirans. Vestræn olíufyrirtæki flykktust til landsins og námafyrirtæki kepptust um að bjóða í námagröft eftir bæði algengum og fágætum málum. Hvergi í heiminum er unnið meira úran úr jörðu en í Kasakstan. Erlend fjárfesting er meiri í Kasakstan en í nokkru öðru CIS-landi, en til þeirra teljast fyrrum Sovétlýðveldi önnur en Eystrasaltslöndin.
Eftir erfið fyrstu ár sjálfstæðis, þegar uppbrotin í kjölfar aflagningar efnahagskerfis kommúnismans voru sem sársaukafyllst, fór olíu- og málmauðurinn að renna hraðar. En hann flæddi ekki til almennings heldur fossaði að miklu leyti til fárra útvalda. Í stærstu borginni Almaty, sem var áður höfuðborg landsins, var alkunnugt að bestu kúnnar glæsihótelanna voru opinberir embættismenn sem varla hafa borgað brúsann af laununum einum saman.
Nasarbajev var um tíma talinn sjötti ríkasti maður í heimi þó að hann hefði verið opinber embættismaður alla tíð. Hann bauð forsetum nágrannaríkja með sér í gulli sleginni einkaflugvél forsetaembættisins í innkaupaferðir til Sviss. Á undanförnum áratugum hafa ættingjar og bandamenn hans efnast ógurlega. Endurskoðunarfyrirtækið KPMG áætlar að 162 einstaklingar – sem margir tengjast Nasarbajev – eigi 55 prósent af þjóðarauðnum.
Í skýrslu Chatham House kemur fram að auðugir Kasakar eigi lúxusíbúðir og hús í Lundúnum fyrir rúmlega 90 milljarða króna, þar fjölskylda Nasarbajevs fyrir tæplega 60 milljarða. Elsta dóttir Nasarbajevs, Daríga, er litrík og vellauðug kaupsýslukona og var forseti öldungadeildar kasaska þingsins þangað til 2020. Ekki alls fyrir löngu kom í ljós að yngsta dóttir hans, Aliya, hafði í kaupæði árið 2006 keypt sér hús í Lundúnum fyrir 1,5 milljarð króna og Bombardier einkaþotu fyrir þrjá milljarða.
Nasarbajev á útleið?
Ýmislegt bendir til að nýi forsetinn, Tokayev, hafi fengið nóg af forvera sínum og sé byrjaður að bola nánustu stuðningsmönnum hans út úr stjórnkerfinu. Það kann jafnvel að hafa byrjað 2020 þegar hann þakkaði Darigu fyrir þjónustu hennar sem forseti öldungadeildar þingsins. En eftir blóðsúthellingar undanfarinna vikna hafa nokkrir lykilmenn, sem teljast til bandamanna Nasarbajevs, hröklast úr embætti.
Helstur þeirra þykir Karim Massimov, yfirmaður leyniþjónustunnar (gamla KGB), sem var ekki bara rekinn úr embætti heldur tekinn höndum grunaður um landráð. Hann var áður forsætisráðherra landsins og talinn handgenginn stjórnvöldum í Moskvu.
Fyrstu viðbrögð Tokayevs forseta við mótmælum almennings í upphafi nýs árs boðuðu ekki gott. Að minnsta kosti á annað hundrað manna, en líklega miklu fleiri, voru skotin til bana. Tokayev varaði fólk við að koma saman því lögregla myndi skjóta án viðvörunar. Svo bauð hann Rússum að senda „friðargæsluliða“ til að verja opinberar byggingar.
En síðustu daga hefur hann bæði snúist gegn Nasarbajev og lofað pólitískum og efnahagslegum umbótum. Í ræðu á kasaska þinginu viðkurkenndi hann að rót vandans væri vaxandi ójöfnuður, setti fimm ára bann við launahækkunum æðstu embættismanna og boðaði samráð um víðtækar umbætur.
Hann nefndi forvera sinn og velgjörðarmann ekki nema einu sinni í allri ræðunni þegar hann sagði að Nasarbajev hefði skilið eftir sig nokkur ábatasöm fyrirtæki og hóp manna sem teldust til ríkmenna, jafnvel á heimsvísu. Hann bætti við að Þróunarbanki Kasakstans yrði endurskipulagður, en hann hefði verið notaður sem persónulegur banki nokkurra einstaklinga þegar hægt hefði verið að nota féð til að þróa lítil og meðalstór fyrirtæki.
Haldi Tokayev áfram á þessari braut má vænta breytinga í þessu risastóra 19 milljóna manna landi á mótum Evróu og Asíu. Fátæktin á steppum landsins er nístandi mein og óréttlætið víða yfirgengilegt. Þörf fyrir jafnari dreifingu auðæfanna er yfirgnæfandi.
En ráðist Tokayev af alefli gegn spilltu embættismannakerfi, sem hefur raðað sér um allt í stjórn- og hagkerfi landsins, þá er ekki víst að Nasarbajev og bandamenn hans taki því þegjandi. Valdakerfið í Kasakstan er flókið og ógagnsætt og tengist sömuleiðis fornu fyrirkomulagi ættbálka, sem landið byggja, og áhrif stjórnarherra í Moskvu og Pekíng geta sömuleiðis verið afgerandi. Það er því full ástæða til að fylgjast vel og náið með framvindu mála í Kasakstan næstu mánuði.