Vladimir Pútin Rússlandsforseti vill að Vesturlönd viðurkenni rétt Rússa til áhrifasvæðis sem myndi eins konar varnargarð um Rússland einkum til vesturs en líka suðurs. Þetta er ekki ný rússnesk krafa; Stalín krafðist þess sama fyrir Sovétríkin eftir síðara stríð og fékk því framgengt. Þannig skrifuðu Churchill og Roosevelt undir örlög Póllands í Jalta skömmu fyrir stríðslok.
Eftir að Pólverjar með öðrum Mið- og Austur-Evrópuþjóðum yfirgáfu Varsjárbandalagið og gengu í NATO og ESB, beinir Pútin augum sínum að löndum sem áður voru lýðveldi í Sovétríkjunum. Það innifelur þá kröfu um úrslitavald í málefnum Belarús, Úkraínu, Kákasuslýðveldanna (Georgíu, Armeníu og Aserbædjan) og að minnsta kosti fjögurra af MIð-Asíulýðveldunum (Kasakstan, Kirgistan, Úsbekistan og Tadsíkistan).
Munurinn á ástandinu nú og undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari er hins vegar sá að þá var Stalín með brynvarðar sveitir langt inn í Mið-Evrópu. Churchill og Roosevelt áttu erfitt með að segja þvert nei og urðu að láta sér nægja málamiðlanir í þröngri stöðu. Pútin þarf hins vegar að senda her yfir landamæri inn í sjálfstæð ríki, eins og hann hefur gert bæði í Georgíu og Úkraínu – og nú síðast í Kasakstan í boði sitjandi stjórnar til að kveða niður innanlandsólgu.
Sögulegur ótti
Þeir sem vilja bera blak af Pútin segja að Vesturlönd þurfi að taka tillit til sögulegs ótta Rússa við innrás úr vestri með hliðsjón af þeirri staðreynd að þeir hafi tvisvar orðið fyrir innrás þaðan (Napoleon og Hitler). Sá ótti er í sjálfu sér til staðar – en á engan rétt á sér og meðvirkni með honum er misráðin.
Hugmyndin um að nokkur þjóð geti áskilið sér vald til að ráðskast um stjórnarhætti í nágrannalandi af því að hugsanlega verði gerð innrás í gegnum það er ekki bara fáránleg heldur stórhættuleg. Fáránleikinn sést meðal annars á því að ekki hafa önnur ríki gert slíkar kröfur. Hættan er sú að ef fallist er á hana þá munu önnur ríki vafalaust fá sams konar hugmyndir. Við getum rétt ímyndað okkur hvert það leiðir.
Raunveruleg ástæða þess að Pútin hamast á Úkraínu er ekki ótti við innrás í Rússland. Það dettur engum í hug að ráðast inn í Rússland. Ástæðan er miklu fremur ótti við óhagstæðan samanburð. Takist Úkraínumönnum að koma sér upp stöðugu lýðræði þar sem valdaskipti eru friðasamleg og spilling er í lágmarki þá munu samlandar Pútins taka eftir því.
Pútin veit sem er að Rússum finnst Úkraína og Belarús vart teljast til útlanda. Hann hefur meira að segja skrifað lærða grein til að halda því fram að Úkraína sé nánast óaðskiljanleg Rússlandi.
Horfa til Úkraínu
Margir og kannski flestir Rússar bera svipaðan hug til þessara tveggja landa. Þeir eru því miklu líklegri til að horfa til þeirra eftir pólitískum samanburði heldur en til dæmis til Vesturlanda. Síðasti Stalínistinn í Evrópu, einræðisherrann í Belarús, er þannig að flestum Rússum mun þykja Pútin skömminni skárri. En verði Úkraína lýsandi dæmi lýðræðis og góðra stjórnarhátta, þá verður samanburðurinn ekki jafn hagstæður. Eftir að sölsa smám saman undir sig æ meiri völd í rússnesku samfélagi, þá hefur Pútin enga þörf fyrir slíkt fordæmi hjá þjóð sem Rússar samsama sig við.
Ómögulegt er að segja hvort Pútin mun á endanum siga 130 þúsund manna her sínum á Úkraínumenn. Líklega vonast hann enn til að geta náð markmiðum sínum án þess. Ef til vill dugar honum að fá Vesturlönd til að gera nógu miklar tilslakanir varðandi NATO og ESB aðild til að hann geti lýst yfir einhvers konar sigri.
Hagur af spennu
Ef til vill mun ráðamönnum í Evrópu og Bandaríkjunum þykja það þess virði að gefa eitthvað eftir til að koma í veg fyrir blóðsúthellingar. Bál í Úkraínu getur dreift úr sér eins og sinueldur. Raunveruleg hætta er á því að Balkanstríðin á tíunda áratugnum verði eins og barnaleikur miðað við það sem gerist ef Rússar gera innrás í Úkraínu, þar sem búa rúmlega 40 milljónir manna.
Bjartsýnasta framtíðarspáin er að stjórnvöld í Moskvu, Berlín og Washington – það eru þau sem skipta máli – muni ná samkomulagi um að fækka í herjum og vinna að langtíma spennulosun í Evrópu. Annað er í raun ekki rökrétt enda engin ástæða fyrir nokkurt land í Evrópu að ógna neinu öðru landi. Og hví þá að safna saman skriðdrekum á landamærum?
En sú bjartsýnisspá horfir framhjá því hvert markmið Pútins er með óhemjuganginum. Hann hefur engan pólitískan hagnað af minni spennu. Þvert á móti þá telur hann sig hafa hag af því að viðhalda spennu vegna þess að þannig viðheldur hann völdum. Þar liggur vandinn.