Nú hefur það gerst sem var viðbúið. Vladimír Pútin forseti Rússlands hefur viðurkennt uppreisnarsvæðin tvö í Úkraínu sem sjálfstæð ríki og fyrirskipað hernum inn í þau – yfir úkraínsku landamærin – til “friðargæslu.”
Í ranti á fundi rússneska öryggisráðsins, sem stjórnvöld virtust gefa í skyn í dag að væri sjónvarpað beint en var í raun sýndur fimm klukkustundum síðar (það sást þegar fréttamenn tóku eftir tímanum á úri varnarmálaráðherrans), hellti Pútin sér yfir Úkraínu. Það var endurtekið þema úr grein sem hann birti á síðasta ári, að Úkraínumenn og Rússar væru ein þjóð, að Rússar hefðu „skapað“ Úkraínu eins og hún lítur út nú og að rússnesk landsvæði hefðu með rangindum verið gefin til Úkraínu.
Öryggisráðsfundurinn var ekki eini sjónvarpsviðburðurinn sem Rússar hafa sviðsett eða falsað á undanförnum dögum. Rússneskar sjónvarpsstöðvar hafa flutt myndskeið sem eiga að sýna árásir Úkraínumanna en sem rannsóknarfréttamenn Bellingcat segja að séu fölsuð. Í einu tilviki var hljóðrásin tekin að láni úr tíu ára gömlu myndskeiði. Upptökur af ávörpum leiðtoga uppreisnarsvæðanna reyndust vera teknar tveimur dögum fyrr – áður en atburðirnir gerðust sem þeir áttu að vera að bregðast við.
Atburðarásin sem við fylgjumst með þetta dramatíska kvöld er því hönnuð. Það er að gerast sem átti að gerast.
Vesturveldin standa frammi fyrir því að Rússar eru að fara inn í Úkraínu. Allsherjarinnrás er ekki hafin enn. Hins vegar dynur linnulaus áróður á rússneskum almenningi um að Úkraínumenn hafi skotið sprengjum og byssukúlum á almenning á uppreisnarsvæðunum. Pútin telur sig vafalaust hafa búið Rússa undir átök og að þau séu réttlætanleg. Nú er bara spurning hversu viðamikil þau verða.
Hvað gerist næst? Það er ómögulegt að segja en rétt er að fylgjast með því hvort Úkraínumenn svara innrásinni með einhverjum hætti á vígvellinum. Það mun vafalaust gefa Pútin enn frekari tylliástæðu til viðameiri árása. Þá er rétt að rifja upp ummæli vestrænna leiðtoga um að ekki þurfi nema táhlífina á rússneskum hermanni inn fyrir landamærin til að stórkostlegar refsiaðgerðir fari nær sjálfkrafa í gang. Og það er rétt að fylgjast vel með þessum 190 þúsund rússnesku hermönnum sem hafa umkringt Úkraínu og leyniþjónustustofnanir segja að séu flestir komnir í árásarstellingar.
Í Úkraínu er nóttin ung og enn getur margt gerst. Það er ástæða til að óttast.